Í hennar heimi, nýjasta verk tónlistarkonunnar Iðunnar Einars, gerir tilraun til þess að skapa þann hugarheim sem gjarnan verður til þegar við liggjum milli svefns og vöku. Hún er raunveruleg og draumkennd í senn, martraðakennd, falleg, skelfileg, leikræn, einlæg og full af dulspeki, draumum og tilfinningum. Verkið er fyrsta plata Iðunnar í fullri lengd. 

Eftir útgáfu síðustu plötu sinnar, Allt er blátt, fann Iðunn fyrir enn frekari þörf á að færa popptónlist meira inn á svið klassískra tónsmíða. í hennar heimi er myrkari, flóknari og framsæknari en Allt er blátt og leggur áherslu á áhugaverðan hljóðheim og spennandi hljóðfæraútsetningar. Textar plötunnar byggja á vináttu, samböndum, draumum, svefni og tilfinningum. Platan inniheldur 13 lög sem öll hafa samverkandi áhrif á hvort annað og mynda þannig ákveðið heildarverk.

Iðunn Einars stundaði klassískt fiðlunám í 15 ár. Samhliða því að semja popptónlist með klassískum áhrifum skapar hún samtímatónlist með áherslu á hið leikræna. Hún útskrifaðist með BA-gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands sumarið 2021 og stundar nú meistaranám í sama fagi við Rythmísku Konservatoríuna í Kaupmannahöfn.